Egill ÍS brann

Klukkan hálf ellefu í gærkvöldi hafði  Egill ÍS-77, sem er 70 brúttótonn dragnótarbátur, samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti um eld í ljósavélarými. Skipverjar sem eru fjórir sögðust vera búnir að loka öllu að vélarrýminu til að hefta útbreyðslu eldsins og til að freista þess að kæfa hann. Egill var staddur út af mynni Dýrafjarðar.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði til nærstaddra skipa og báta og óskaði eftir að þau stefndu að Agli ÍS-077, auk þess sem áhöfn TF-LÍF var ræst út sem og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á vestfjörðum.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendi 3 slökkviliðsmenn með TF-LÍF og slökkviliðsmenn af Vestfjörðum voru sendir með bátum á vegum sjóbjörgunarsveita á Vestfjörðum.

Næst Agli ÍS-077 var báturinn Jón Hákon BA sem áætlaði að verða við Egil um kl. 23:10 en einnig hélt Aldan ÍS í átt að Agli en þessir bátar voru staddir við mynni Dýrafjarðar.

Samkvæmt upplýsingum af vettvangi virtist eldur enn laus um borð um kl. 23:00 en þar sem Egill gat siglt undir eigin vélarafli var skipið komið á lygnari sjó inn á Dýrafirði.

Kl. 23.18 tilkynnti Jón Hákon að þeir væru komnir að Agli og fylgdu skipinu til hafnar á Þingeyri. Kl. 23.43 komu 3 slökkviliðsmenn um borð í Egil en þeir voru fluttir með fiskibátnum Imbu frá Þingeyri.

Upp úr miðnætti kom TF-LÍF á vettvang en um svipað leiti komu fleiri slökkviliðsmenn með fiskeldisbátnum Hafnarnesi sem fóru um borð í Egil.

Var því ákveðið að þyrlan lenti á Þingeyri með slökkviliðsmennina frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og biði átekta ef á aðstoð þyrfti að halda.

Jón Hákon og Aldan snéru við en Egill hélt í fylgd Hafnarness, Imbu og björgunabátsins Gísla Hjalta frá Bolungarvík sem komin var inn á Dýrafjörð um kl. 00:30.

Egill lagði að bryggju á Þingeyri laust eftir kl. eitt í nótt og slökkviliðsmenn náðu að slökkva eldinn um tvöleytið í nótt. Snemma í morgun blossaði eldurinn upp aftur og um hálfníuleytið tókst slökkviliðsmönnum að slökkva alla elda. Báturinn er mjög skemmdur, ef ekki ónýtur.

DEILA