Djúpið enn þá inni í myndinni

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Mynd: mbl.is / Helgi Bjarnason.

Stjórnendur Arnarlax eru ekki hættir við laxeldisáform í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið hefur verið með 10 þúsund tonna eldi í Djúpinu í umhverfismati. „Við erum ekkert hættir í Djúpinu, ekki frekar en Arctic Fish eða Háafell,“ segir Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Starfshópur sjávarútvegsráðherra um stefnumótun í fiskeldi hefur lagt til að farið verði eftir áhættumati Hafrannsóknastofnunar þar sem mælst er til að Ísafjarðardjúpi verði lokað fyrir laxeldi. Víkingur segir að nú sé verið að meta stöðuna, hvort það sé hægt að fara af stað og þá með hvaða leiðum.

„Við viljum vera sparir á yfirlýsingar á meðan við erum að meta hvernig staðan er. Nú fara þessar tillögur í þingið og við sjáum hver niðurstaðan verður. Við ætlum að vinna með stjórnvöldum og vísindamönnum um áframhaldandi uppbyggingu greinarinnar og styðjum það starf,“ segir Víkingur.

smari@bb.is

DEILA