Dísa leitar að sandi í Fossfirði

Orkustofnun hefur veitt Björgun ehf. í Reykjavík, leyfi til ársloka til tilraunatöku á möl og sandi af hafsbotni, þ.e. á svæði út af mynni Fossár í botni Fossfjarðar við Arnarfjörð. Leyfið tekur til tilraunatöku með sanddæluskipi á allt að 300 rúmmetrum af möl og sandi, þ.e. til töku sex sýna, allt að 50 rúmmetrum hvert sýni.

Í leyfinu kemur fram að vegna framkvæmda við Dýrafjarðargöng, auk annarra fyrirhugaðra verkefna á Vestfjörðum, leitar Björgun ehf. að möl og sandi sem uppfyllir efniseiginleika til notkunar í steinsteypu og fyllingar.. Með tilraunatökunni á að afla sýna til að rannsaka efniseiginleika malar og sands í botni Fossfjarðar, með tilliti til notkunarkrafna í Dýrafjarðargöngum.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framangreindrar tilraunatöku, er það niðurstaða stofnunarinnar að tilraunataka á möl og sandi af hafsbotni í Fossfirði við Arnarfjörð sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Fyrir liggur áætlun um tilraunatöku á sex sýnum, en á þeim verða gerðar ýmsar greiningar og steypuprófanir á viðurkenndum rannsóknastofum. Orkustofnun hefur einnig farið yfir áhrif tilraunatöku á nýtingu og aðra starfsemi í nágrenni tilraunatökusvæðis, s.s. hlunninda af æðarvarpi, fiskeldis í sjókvíum, kræklingaræktar, beltisþararæktunar, leyfissvæðis til töku kalkþörungasets og neðansjávarlagna. Vegna hlunninda af æðarvarpi taldi Orkustofnun nauðsynlegt að leyfið tæki ekki gildi fyrr en 15. júlí 2017.

Við undirbúning að útgáfu leyfisins var leitað umsagnar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vesturbyggðar.

 

smari@bb.is

DEILA