Aldrei sátt um að loka Djúpinu

Elsa Lára Arnardóttir. Mynd: mbl.is / Ómar

Ef rétt haldið á málum á að vera hægt að byggja rólega upp umhverfisvænt fiskeldi í Ísafjarðardjúpi jafnframt því að stunda áfram nýtingu á laxveiðiánum við Djúpi. Þetta segir Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi. Hún segist ekki geta skrifað undir að loka fyrir fiskeldi í Djúpinu. Hafrannsóknastofnun hefur lagst gegn laxeldi á frjóum fiski í Ísafjarðardjúpi til að vernda laxastofna í þremur ám.

„Mér finnst mikilvægt að fiskeldið sé byggt upp á rannsóknum og vísindum og fagna því aðkomu Hafrannsóknastofnunar að málinu. Hins vegar er þetta ný aðferðafræði sem er verið að beita með áhættumatinu, það þarf að fá að þróast og standa á sterkum vísindalegum grunni áður en það er gert að stjórntæki,“ segir Elsa Lára.

Hún kallar eftir að fleiri þættir verði teknir inn í jöfnuna. „Eins og til dæmis mótvægisaðgerðir sem eru byggðar á því sem best þekkist erlendis til að fyrirbyggja mögulegan skaða en mér sýnist sem þær hafi ekki verið inn í forsendunum fyrir matinu.“

Elsa Lára segir það verkefni stjórnmálamanna að sætta ólík sjónarmið í þessu máli. „En það verður aldrei sátt með Ísafjarðardjúp lokað.“

smari@bb.is

DEILA