Afkoma bæjarins langt undir fjárhagsáætlun

Ísafjörður

Afkoma Ísafjarðarbæjar eftir fyrstu sex mánuði ársins er mun verri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Hallarekstur bæjarins á fyrri helmingi ársins nam 4,4 milljónum kr. en fjárhagsáætlun gerðir ráð fyrir 82,6 milljóna kr. rekstrarafgangi á tímabilinu. Samkvæmt minnisblaði Eddu Maríu Hagalín, fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar, eru minni skatttekjur helsta ástæða fyrir rekstrarhalla bæjarins. Skatttekjur Ísafjarðarbæjar (útsvar og framlag jöfnunarsjóða) voru 111 milljónum kr. lægri en gert var ráð fyrir fjárhagsáætlun.

Þá drógust tekjur hafnarinnar verulega saman, eða um 52 milljónir kr. Rekstrafgangur hafnarinnar eftir sex mánuði var neikvæður um 3,9 milljónir kr. en fjárhagsætlun gerði ráð fyrir 32 milljóna kr. afgangi af rekstri. Í minnisblaðinu kemur fram að skekkja gæti verið í samanburðinum þar sem verið er að innleiða nýtt kerfi yfir tekjubókanir og  hugsanlega eru einhverjar tekjur bókaðar í ágúst sem tilheyra júní.

Þá er mun verri afkoma af Fasteignum Ísafjarðarbæjar ehf., en halli af rekstrinum nam 35,6 milljónum kr. þegar fjárhagsætlun gerði ráð fyrir 2,4 milljón kr. hallarekstri. Skýringanna er að leita í því að viðhaldi á Fjarðarstræti 4-6 sem var farið í á árinu 2016 en hluti Fasteigna Ísafjarðarbæjar var greiddur á þessu ári, alls 20 milljónir kr. Þá voru fasteignagjöld á íbúðum bæjarins á Ísafirði vanáætluð um 3,5 milljónir kr. Annað viðhald á íbúðum á Ísafirði er 10,5 milljónum króna yfir áætlun og er að mestu vegna framkvæmda á Pollgötu.

Það vegur á móti minnkandi tekjum að nokkrir málaflokkar skila betri afkomu en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Má þar nefna félagsþjónustuna sem skilar 20 milljónum kr. betri afkomu vegna hærri tekna frá Byggðasamlagi Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks. Þá er snjómokstur 11 milljónum kr. undir áætlun og rekstur Slökkviliðs Ísafjarðar og rekstur sjúkraflutninga 8,5 milljónum kr. betri en áætlun gerði ráð fyrir.

smari@bb.is

DEILA