Stefnt er að því sýning um Hornstrandir verði opnuð á Ísafirði og reist verði sérstakt hús fyrir sýninguna innan tíðar. Verkefnið er samstarfsverkefni Umhverfisstofnunar, Ísafjarðarbæjar, Byggðasafns Vestfjarða og Upplýsingamiðstöðvar á Ísafirði. Frá þessu er greint á vefsíðu Umhverfisstofnunar, sem hefur umsjón með friðlandinu á Hornströndum, en svæðið hefur verið friðlýst síðan 1975. Hornstrandafriðlandið hefur um árabil verið vinsælt hjá ferðamenönnum sem sækja í þá náttúrufegurð og stemningu sem finnst á svæðinu og eru erlendir ferðamenn í meirihluta. Jón Smári Jónsson, sérfræðingur Umhverfisstofnunar á Ísafirði, segir að hugmyndir um sýninguna hafi kviknað fyrir efnahagshrunið 2008. Sitthvað hafi orðið til að fresta framkvæmdum síðan en nokkuð er liðið síðan húsgrunnur var steyptur við hlið nýbyggingar Byggðasafnsins í Neðstakaupstað. Nú þarf að halda áfram með það verk, að sögn Jóns Smára.

Jón Smári segir að sýningin um svæðið á Ísafirði gæti komið í staðinn fyrir ferðir út í friðlandið hjá hluta ferðamanna. Æskilegt sé að halda ágangi í skefjum og heimila ekki meiri umferð en svæðið ber.

Þá segir Jón Smári sína reynslu af landvarðarstörfum í friðlandinu spegla vel að ferðamenn fagni því að hafa starfsmenn í kringum sig í íslenskri náttúru, þar sem hægt sé að spyrja spurninga og leita ráðgjafar. Umgengni í friðlandinu sé almennt góð en fara þurfi mjög varlega, einkum á tilteknum tímum ársins.

Landvarðavikum á Hornströndum var fjölgað mjög í sumar frá fyrra ári og veitir ekki af að sögn Jóns Smára.

smari@bb.is

DEILA