Yngri flokkarnir á faraldsfæti

6. flokkur Vestra á Orkumótinu í Vestmannaeyjum.

Fótboltastarfið er komið á fullt skrið hjá Vestra og hefur verið mikið að gera síðustu vikur hjá krökkunum í boltanum. Eldri flokkar frá 5. flokki og upp í 2. flokk hafa verið á fullu á Íslandsmótunum sem halda áfram út sumarið.

Í fyrsta skiptið í langan tíma er 2. flokk stúlkna á Íslandsmóti. Þær hafa spilað 4 leiki í sumar og hefur verið mikill stígandi í leik stelpnanna. Er það von knattspyrnuforkólfa í Vestra að stúlknaflokkurinn sem keppir í ár sé fyrirboði um stofnun meistaraflokks á næsta ári.

Einnig hefur verið mikið að gera hjá yngstu flokkunum og mikil fjölgun á æfingum hjá félaginu og þá sérstaklega í yngsta flokknum og einnig er talsverð fjölgun í 7. og 6. flokki stúlkna.

Yngstu flokkar drengja hafa sótt stóru fótboltamótin sem eru haldin á víð og dreif um landið. Sjöundi flokkur drengja fór með stóran hóp á Norðurálsmótið á Akranesi í lok júni og um síðustu helgi sótti 6. flokkur drengja Orkumótið í Vestmannaeyjum.

DEILA