Vestfirðir verði að njóta góðs af virkjuninni

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.

„Ef Vestfirðingar ætla að fórna þessu mikla náttúruvætti sem Hvaláin er og Ófeigsfjörðurinn, þá verður að vera algjörlega tryggt að þeir njóti sjálfir góðs af þessum virkjanaframkvæmdum. En það er ekkert í hendi með það,“ sagði Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fyrrverandi alþingismaður, á Morgunvakt Rásar 1 í morgun.

Ólína segir að það séu aðrir en Vestfirðingar sem ákveði hvort tengivirkið verður í Ísafjarðardjúpi eða að það fari annað. „Það er ekki sjálfgefið að áformin um Hvalárvirkjun gagnist Vestfirðingum. Það er verið að reisa þessa virkjun, ef af verður, fyrir stóriðjuna á Íslandi og raforkan fara inn á landsnetið. Hringtenging raforku á Vestfjörðum er önnur umræða, háð annarri ákvarðanatöku.“

Ólína er ekki andvíg virkjuninni og að Hvalársvæðinu verði fórnað, ef tryggt er að Vestfirðingar fái orkuna. „Ég er ekki tilbúin að fórna því í tilgangsleysi. Auðvitað eru Vestfirðingar orðnir þreyttir. Þeir upplifa þetta þannig að Vestfirðir eigi að vera friðað svæði fyrir aðra landsmenn að horfa á, en sjálfir ekki njóta þeirra auðlinda sem hér er að hafa. Þeir eru brenndir á því að hafa misst frá sér auðlindir og vitanlega eiga þeir kröfu á raforkuöryggi og öflugum innviðum til að byggja upp þetta svæði.“

DEILA