Segir strandveiðimenn nánast tekjulausa

Mikil lækkun á fiskverði vegna sterks gengis íslensku krónunnar ræður því að nokkru að talsvert færri sjómenn stunda strandveiðar í ár en á því síðasta. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir í Morgunblaðinu dag að lágt verð valdi því að strandveiðimenn séu „nánast tekjulausir.“  Virk veiðileyfi eru nú 560 en voru 628 í fyrra. Þá var kílóverðið fyrir handfærafisk á markaði 267 krónur en er nú 203 krónur. „Menn eru alveg ráðþrota yfir þessu. Verðið er farið niður úr öllu valdi og þó hafa gæði afla sennilega aldrei verið meiri en nú,“ segir Örn við Morgunblaðið.

 

Aflaheimildir í strandveiðum eru alls 9.200 tonn, 200 tonnum meiri en í fyrra. Mestu er úthlutað á veiðisvæði A, sem nær frá Snæfellsnesi vestur í Ísafjarðardjúp; alls 3.410 tonnum. Bátar með veiðiheimildir þar eru 215 og hafa sjómenn á þeim miðum klárað kvóta hvers mánaðar. Á öðrum svæðum, úti fyrir Norður-, Austur og Suðurlandi, hafa verið fyrningar í hverjum mánuði sem þá flytjast yfir í þann næsta.

DEILA