Körfuboltakrakkar í Vestra fjölmenntu í æfingarbúðir til Spánar í lok júní. Alls voru Vestrakrakkarnir 21 talsins, jafnt strákar sem stelpur á aldrinum 13-18 ára og voru sjö foreldrar með í för. Æfingabúðirnar kallast BIBA Camp og eru þær fyrstu sem Borche Ilievski, fyrrum yfirþjálfari KFÍ, stendur fyrir í eigin nafni. Æft var og gist á fjölbreyttu æfingasvæði og sumarbúðum í Amposta Parc í Katalónuhéraði á Spáni og stóðu búðirnar yfir í sjö daga. Verulegur hiti var alla dagana, allt upp í 34 gráður, en krakkarnir sýndu mikinn dugnað og virtust venjast aðstæðum ótrúlega fljótt. Engu að síður var þreytan farin að gera vart við sig undir lok búðanna enda æft 3.-4. sinnum á dag, þótt hvílt væri yfir heitasta tíma dagsins. Sundlaug búðanna var síðan vel nýtt til kælinga milli æfinga.
ÍR og Þór Þorlákshöfn voru einnig með stóra æfingahópa í búðunum og kynntust íslensku krakkarnir og fararstjórar allir ágætlega innbyrðis. Í þjálfarateymi Borche voru færir þjálfarar víða að úr Evrópu; frá Spáni, Frakklandi, Ítalíu, Danmörku, Serbíu, Svartfjallalandi og Íslandi og voru æfingarnar bæði krefjandi og uppbyggilegar. Krakkarnir fara allir heim með betri grunn í körfubolta en þegar þau komu og sá var einmitt tilgangurinn.
Ferðin var farin með styrk fjölmargra aðila á norðanverðum Vestfjörðum en krakkarnir héldu m.a. körfuboltamaraþon í vor til fjáröflunar og söfnuðu myndarlegri upphæð til fararinnar.
Körfuboltakrakkarnir í Vestra koma víðsvegar að af norðanverðum Vestfjörðum og úr öllum byggðakjörnum, allt frá Hólmavík til Þingeyrar, ef frá er talin Flateyri. Ferð á borð við þessa þéttir raðirnar og úr verður vinskapur sem í mörgum tilfellum endist ævina langa.