Byggja íbúðahúsnæði á Bíldudal

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt beiðni Íslenska kalkþörungafélagsins um að fá úthlutað lóð til byggingar raðhúss með fjórum 75 fermetra íbúðum við Tjarnarbraut á Bíldudal, á óbyggða svæðinu við hlið leikskólans að undangenginni jákvæðri afgreiðslu skipulags- og umhverfisráðs. Bæjarstjórn hefur falið skipulagsfulltrúa að útfæra lóðir á framangreindu svæði.

Hugmynd Kalkþörungafélagsins er að kaupa tilbúið vandað raðhús úr einingum á tveimur hæðum frá eistneska byggingafyrirtækinu Akso-Haus sem annast mun uppsetningu hússins á staðnum. Af hálfu Kalkþörungafélagsins er nú unnið að lokahönnun á skipulagi íbúðanna með framleiðanda hússins sem mun afhenda íbúðirnar tilbúnar til innflutnings, það er fullmáluðum og með gólfefnum, eldhúsinnréttingu og dúkalögðu baðherbergi með tilheyrandi tækjum. Gólfhiti verður í öllum íbúðunum, bæði á efri og neðri hæð. Skipulag hússins gerir ráð fyrir að hægt verði að skipta hverri íbúð í tvær einingar ef þörf krefur til að koma til móts við þarfir einstaklinga eða barnlausra para og yrðu þá alls átta íbúðir í húsinu.

Ástæða þess að Kalkþörungafélagsins óskaði eftir byggingarleyfi er skortur á íbúðarhúsnæði fyrir starfsfólk félagsins sem einnig hamlar nýráðningum til að uppfylla mannaflaþörf fyrirtækisins. Sem stendur virðast hvorki vera forsendur fyrir því að einstaklingar, sérstaklega ungt fólk, ráðist á eigin vegum í byggingaframkvæmdir á staðnum né heldur íbúðarkaup á notuðu húsnæði auk þess sem lánastofnanir lána einungis að hámarki fyrir 70 prósentum af fasteingamati. Því telur félagið að sem stendur sé eina færa leiðin að ráðast á eigin kostnað í byggingu íbúðarhúsnæðis á Bíldudal sem síðan megi selja á almennum markaði þegar aðstæður skapast. Vonast er til að unnt verði að hefja framkvæmdir næsta vor.

Meðfylgjandi mynd sýnir fjögurra íbúða raðhúshús áþekkt því í útliti sem Kalkþörungafélagið hyggst kaupa af eistneska byggingafyrirtækinu Akso-Haus.

DEILA