Byggðakvóti til 10 ára

Starfshópur sjávarútvegsráðherra um breytingar á byggðakvótakerfinu leggur til að byggðakvótanum verði úthlutað til 10 ára í stað eins árs, tryggður verði meiri stöðugleiki og sveigjanleiki um leið. En hvernig ætli Samtökum í sjávarútvegi, áður LÍÚ, lítist á þetta? „Staðan er algjört PR-disaster fyrir stóru sjávarútvegsfyrirtækin. Í hvert sinn sem löppunum er kippt undan litlu sjávarþorpi, þá segja menn: Þetta kvótakerfi þarf að fara!“ sagði Þóroddur Bjarnason, formaður starfshópsins, á Morgunvakt Rásar 1 í gær.

Starfshópurinn leggur til að gerðir verði samningar við úthlutun byggðakvóta til 10 ára í stað eins árs nú með skýrum og mælanlegum markmiðum um atvinnuþróun, sem Byggðastofnun fylgi eftir í samstarfi við sveitarfélög, ásamt meiri stöðugleika við úthlutun og sveigjanleika í nýtingu. Horfið verður frá núverandi fyrirkomulagi vinnsluskyldu fisksins á þeim stað sem fær úthlutaðan byggðakvóta. Þóroddur Bjarnason segir að reglurnar hafi ekki verið raunhæfar. Í sumum þorpum sé hreinlega ekki mikil framtíð í sjávarútvegi.

„Kerfið er þannig að það er verið að bregðast við áföllum. Á hverju ári er verið að færa á milli staða. Það þýðir að erfitt er að byggja á þessu. Þú byggir ekki upp fyrirtæki á kvóta sem þú veist ekki  hver verður næsta ár. Sumir hafa sagt að það sé verið að tryggja að allir sökkvi á sama hraða,“ sagði Þóroddur.

DEILA