Breikkun kostar helming af nýjum göngum

Breikkun einbreiðra ganga kostar um helminginn af nýjum göngum og ekki stendur til að breikka þau göng sem fyrir eru að sögn Guðmundar Kristjánssonar, tæknifræðings hjá Vegagerðinni á Ísafirði. Fyrir helgi varð umferðarslys í Súgandafjarðarlegg Vestfjarðaganga, en sá kafli ganganna er einbreiður. Á vef RÚV er haft eftir Guðmundi að ekki sé líklegt að ráðist verði í að breikka einbreið göng á Íslandi, en auk Vestfjarðaganga eru Múlagöng, Strákagöng og Oddsskarð einbreið, en síðastnefndu göngin verða leyst af hólmi í haust með Norðfjarðargöngum.

„Það er auðvitað framkvæmanlegt [að breikka göngin] en það kostar sirka 50-60 prósent af nýjum göngum. Svo fyrr gerðist það líklega að það væri leitað leiða til að draga ný göng,“ segir Guðmundur.

DEILA