Áhættumat vegna erfðablöndunar laxa

Niðurstaða Hafrannsóknastofnunar um að ekki ætti að leyfa laxeldi í Ísafjarðardjúpi hefur valdið talsverðum titringi enda mikið í húfi. Hafrannsóknastofnun var falið að meta hvort og þá hve mikil hætta væri á erfðablöndun milli eldislaxa og villtra laxa og niðurstaða matsins er sú að það sé hætta á erfðablöndun, en þó aðallega í ám næst fiskeldi. Í skýrslu stofnunarinnar stendur orðrétt:

„Líkanið gerir almennt ráð fyrir litlum áhrifum á náttúrulega stofna fyrir utan nokkrar ár. Nokkur áhrif verða á Laugardalsá, Hvannadalsá/Langadalsá í Ísafjarðardjúpi en Breiðdalsá í Breiðdalsvík er sú á sem virðist í mestri hættu. Þessar fjórar ár þarf að vakta sérstaklega. Af þessum ástæðum og í ljósi núverandi þekkingar er lagt til að ekki verði leyft eldi í Ísafjarðardjúpi vegna mögulegra mikilla neikvæðra áhrifa á laxastofna í Djúpinu. Af sömu ástæðum er lagt til að eldi verði ekki aukið í Berufirði og lagst gegn eldi í Stöðvarfirði vegna nálægðar við Breiðdalsá. Niðurstöður matsins eru því að ásættanlegt sé að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land. Þar af 50.000 tonn á Vestfjörðum og 21.000 tonn á Austfjörðum. Hér er um að ræða um sjöfalda núverandi ársframleiðslu í íslensku laxeldi sem nú er um 10.000 tonn. Helsta ástæðan fyrir þessari niðurstöðu er sú að eldissvæðin eru í mikilli fjarlægð frá helstu laxveiðiám og laxeldi er bannað á mjög stórumhluta strandlengjunnar. Í Noregi og Skotlandi eru eldissvæðin hins vegar í mjög mikilli nálægð viðhelstu laxveiðiár og því verða blöndunaráhrifin mun meiri í þessum löndum. Áhættumatslíkanið er fyrst og fremst hugsað sem gagnvirkt verkfæri til þess að meta mögulegt umfang erfðablöndunar áhlutlægan hátt.“

Þær ár sem um er að ræða í Ísafjarðardjúpi eru Laugardalsá með að meðaltali 286 laxa á land á árunum 2010-2014 og Hvannadalsá/Langadalsá með að meðaltali 439 laxa á land á árunum 2010-2014.

Niðurstaða Hafrannsóknarstofnunar bendir til að ekki sé líklegt að fiskeldi geti valdið erfðablöndun svo neinum nemi í einhverri fjarlægð frá eldiskvíum.

bryndis@bb.is

DEILA