Vatnsbúskapurinn óvenju hagstæður

Óvenju mikið í Hálslóni miðað við árstíma.

Staðan í vatnsbúskap Landsvirkjunar er mjög hagstæð um þessar mundir og er Þórisvatn nú við það að fyllast, auk þess sem Hálslón er sögulega í hæsta lagi miðað við árstíma. Þetta kemur fram á vef Landsvirkjunar

Þessa góðu stöðu má rekja til þess að veturinn hefur verið mjög hagfelldur vatnsbúskapnum og vorflóð verið með mesta móti. Í heildina var innrennsli í maímánuði um 50% yfir miðgildi. Miðlunarforðinn náði lágmarki þann 29. apríl, en byrjað var að taka vatn úr miðlunarlónum Landsvirkjunar um miðjan nóvembermánuð. Því var miðlunartíminn 24 vikur, sem er þremur vikum undir meðaltali.

Þessi góða tíð hefur leitt til þess að Þórisvatn hefur fyllst hratt og er við það að fara á yfirfall. Lengra er í að Hágöngulón fyllist, en þegar það gerist eykst innrennsli Þórisvatns enn frekar. Sem fyrr segir er Hálslón nú í hæsta lagi miðað við árstíma. Byrjað er að hleypa vatni  framhjá Jökulsárveitu á fossa í Jökulsá í Fljótsdal. Enn er gert ráð að Hálslón fyllist í lok júlí.

Í Blöndu eru vorflóðin komin fram og hægt hefur á fyllingu Blöndulóns. Reiknað er með að það fyllist seinni hluta júlímánaðar.

Fylling Hálslóns og Blöndulóns ræðst af því hvenær jökulbráð hefst og hversu kröftug hún verður.

DEILA