Útsvarstekjurnar langt undir áætlun

Fyrstu fimm mánuði ársins voru útvarstekjur Ísafjarðarbæjar 86 milljónum kr. lægri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Á tímabilinu voru útsvarstekjurnar 691 milljón kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að tekjurnar yrðu 778 milljónir kr. Samanborið við sama tímabil í fyrra jukust útsvarstekjur um 6 milljónir kr. milli ára.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir ekki ljóst hvað veldur þessum samdrætti. „Við erum að greina þessar tölur og erum í sambandi við Fjársýslu ríkisins til að greina hvað hefur breyst. Íbúum hefur fjölgað á árinu svo skýringarinnar er ekki að leita þar. Laun hafa ekki lækkað á árinu nema síður sé. Að vísu hafa laun sjómanna lækkað í takt við lægra fiskverð og sjómenn voru í verkfalli fram í þriðju viku febrúar, en það ætti ekki að hafa svona mikil áhrif,“ segir Gísli Halldór.

Aðspurður hvort að skýringin gæti verið bókhaldslegs eðlis segir Gísli Halldór það vera hugsanlegt. „Það er þá ekki hjá okkur heldur hjá Fjársýslunni og skattayfirvöldum og við eigum eftir að fá betri upplýsingar um það. Við sjáum engar villur eða skýringar í bókhaldi bæjarins.“

DEILA