Þétt dagskrá á Púkamótinu

Baddó öflugur í markinu á Púkamótinu fyrir örfáum árum.

Púkamótið á Ísafirði hefst á föstudaginn og verður það með miklum glæsibrag í ár. Fyrir utan sjálft knattspyrnumótið ber hæst útgáfa bókar Sigurðar Péturssonar sagnfræðings um sögu ísfirskrar knattspyrnu. Það var stjórn Púkamótsins sem fékk Sigurð til verksins og bókin kemur út á vegum félagsins. Á föstudaginn verður útgáfuteiti í skíðaskálunum í Tungudal og þar ætlar Sigurður að lesa úr bókinni og fyrstu eintökin verða afhent fulltrúum frá Ísafjarðarbæ og Knattspyrnusambandi Íslands.

Fyrr um daginn, eða kl. 17, verður gömlum félögum í ÍBÍ sem fóru með liðið í efstu deild árið 1981 veitt sérstök viðurkenning.

Sjálft mótið hefst á laugardag kl. 13.30 á Torfnesi og er reiknað með að því ljúki kl. 17 og þá gefst tími til að skola af sér svitann og koma sér í gaberdínið því um kvöldið verður hið annálaða lokahóf Púkamótsins með verðlaunaafhendingu og dúndrandi dansleik undir stjórn Rúnars Þórs Péturssonar.

DEILA