Stýrivextir lækka

Mynd: mbl.is
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði stýrivexti bankans í morgun um 0,25 prósentur. Þetta er annan mánuðinn í röð sem stýrivextir lækka með þessum hætti og hafa farið úr fimm prósentum í fjögur og hálft prósent á þeim tíma.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að horfur séu á hröðum hagvexti í ár eins og árin á undan. Útlitið hafi lítið breyst frá síðustu spá Seðlabankans og hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi hafi í meginatriðum verið í samræmi við hana. Peningastefnunefnd segir að hagvöxturinn sé sem fyrr einkum drifinn af örum vexti ferðaþjónustu og einkaneyslu auk þess sem útlit sé fyrir töluverða slökun í aðhaldi opinberra fjármála í ár.

Verðbólga er enn áþekk því sem hún hefur verið sl. hálft ár en undirliggjandi verðbólga virðist hafa minnkað undanfarna mánuði. Þá hafa verðbólguvæntingar til bæði skamms og langs tíma lækkað áfram frá síðasta fundi peningastefnunefndar og raunvextir bankans hækkað. Gagnstæðir kraftar hafa sem fyrr áhrif á verðbólguhorfur, þar sem hækkun gengis krónunnar og lítil alþjóðleg verðbólga vega á móti verðbólguþrýstingi af innlendum rótum. Hefur bilið á milli verðþróunar innlendra þátta, einkum húsnæðiskostnaðar, og erlendra þátta aukist töluvert undanfarna mánuði.

Skýr merki um spennu í þjóðarbúskapnum kalla á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Hækkun raunvaxta bankans frá síðasta fundi peningastefnunefndar felur hins vegar í sér nokkru meira aðhald en nefndin hafði stefnt að og telur nægilegt til þess að stuðla að verðstöðugleika.

DEILA