Stefnt á inntöku nemenda á næsta ári

Fundarmenn voru áhugasamir um stofnun lýðháskóla á Flateyri.

Stjórn félags um lýðháskóla á Flateyri hóaði í íbúafund á sjómannadaginn til að upplýsa íbúa um gang mála við undirbúning skólans. Óttar Guðjónsson gjaldkeri félagsins sagði erfitt að ná sambandi við stjórnsýsluna og ráðuneyti, en engu að síður væri stjórnin bjartsýn á að hægt væri að fjármagna skólann. Í fjárlögum ríkissins væri gert ráð fyrir framlagi til lýðháskóla og gengið væri út frá því að það stæðist. Uppbyggingasjóður Vestfjarða hefur ákveðið að styrkja félagið um 3,5 milljónir kr og vonast væri eftir að Byggðastofnun leggðist sömuleiðis á árarnar.

Áætlað er að ráða verkefnisstjóra í haust og að kennsla hefist haustið 2018.

Runólfur Ágústsson, formaður félagsins, sagði að vonast væri eftir 40 til 60 nemendum á hverri önn og að boðið yrði upp á nám á íslensku og ensku. Ekki er búið að fullhanna námslínur en byggt verður á þeirri þekkingu sem í boði er á svæðinu svo sem eins og ríkri tónlistarhefð, þekkingu á náttúrunni, reynslu Háskólaseturs Vestfjarða á alþjóðlegri menntun, kvikmyndun og fleira.

Það var Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarritari Ísafjarðarbæjar og stjórnarmaður í lýðháskólanum, sem stýrði fundinum sem var fjölmennur og eru íbúar á Flateyri áhugasamir um þetta verkefni.

DEILA