Sorphirðudögum verði fækkað

Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar hefur lagt til við bæjarstjórn að fækka sorphirðudögum þannig að sorphirða verði á þriggja vikna fresti í stað tveggja vikna. Áfram er gert ráð fyrir tveggja tunnu kefi með sorpflokkun en við bætist moltugerð fyrir lífrænan úrgang.

Miklar umræður hafa spunnist um þetta nýja fyrirkomulag á Facebooksíðu Marzellíusar Sveibjörnssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokks, og skiptar skoðanir meðal íbúa á tillögunni sem verður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar í dag.

„Það eru mjög mörg sveitarfélög með losun á þriggja vikna fresti án stórra vandræða. Almenna sorpið minnkar töluvert þegar lífræna er tekið frá. Með því að fækka sorphirðunardögum erum við að spara peninga,“ skrifar Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-listans.

Kristín Hálfdánsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, situr í umhverfis- og framkvæmdanefnd, blandar sér í umræðurnar og skrifar.

„Við í nefndinni erum ekki að finna upp hjólið með að fækka hirðingum í á þriggja vikna fresti, þetta hefur tíðkast um langan tíma hjá mörgum sveitarfélögum og gefist vel. Mikil umræða fór fram í nefndinni hvort við ættum að leggja til þriggja tunnu kerfi, en frá því var horfið og ástæður voru einkum tvær: mikill kostnaður fyrir Ísafjarðarbæ að kaupa aukatunnu og svo að margir íbúar hafa aðlagað sig að núverandi kerfi með kaupum á smekklegri umgjörð um tunnur sínar.“

DEILA