Sorphirða í sátt við framtíðina

Nanný Arna Guðmundsdóttir.

Bæjarstjórn hefur samþykkt tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar um nýja leið til sorphirðu fyrir næsta sorpútboð. Fyrir einungis 9 árum var Ísafjarðarbær að borga u.þ.b. 100 milljónir á ári með sorphirðu og eyðingu, til viðbótar við þau gjöld sem íbúar og fyrirtæki borga beint til  málaflokksins. Markmið nefndarinnar með nýrri leið í sorphirðu er að málaflokkurinn verði sjálfbær og gjöld dugi fyrir rekstrarkostnaði, jafnframt því að vera umhverfisvænni en núverandi aðferð. Allir þurfa að borga fyrir sorpförgun og sorphirðu. Þjónustustig er misjafnt milli sveitarfélaga, aðstæður mismunandi og þar af leiðandi mikill mismunur á gjöldum. Sorp hverfur ekki, það kostar mikla vinnu að urða það, brjóta það niður og jafnvel að endurvinna það. Með nýju leiðinni býðst fólki að velja þá sorphirðu sem hentar því best. Þeir sem þurfa meiri þjónustu en grunngerðin gerir ráð fyrir, geta samið um aukna þjónustu beint við verktakann og greiða fyrir það. Allir íbúar sveitarfélagsins greiða sama grunngjald fyrir grunnþjónustu, en sá sem kýs meiri þjónustu þarf að borga fyrir það.

„Afhverju er alltaf verið að breyta“

Mörgum kann að finnast þessi breyting erfið, ósanngjörn og fíflaleg í byrjun. Það er einmitt eðli breytinga að þær hrista upp í fólki, búa til óþægindi og hvetja fólk til að taka upp nýja hegðun. Góð saga af því eru viðbrögð lagermanns hjá Marel þegar verið var að kynna stefnubreytingu fyrirtækisins fyrir nokkrum árum, hann fussaði á stjórnendur og kallaði hátt og skýrt: „Breyta? Af hverju er alltaf verið að breyta?“. Að þessu sögðu strunsaði hann út af fundinum og skellti á eftir sér.

Við í umhverfisnefnd og í bæjarstjórn gerum okkur grein fyrir því að íbúar eiga eftir að bregðast við þessum breytingum, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Í haust er fyrirhuguð kynning á þessum breytingum í öllum íbúakjörnum sveitarfélagsins og í sumar gefst fólki kostur á að kynna sér gögn umhverfisnefndar og skýrsluna sem unnin var fyrir nefndina. Til að gæta hagsmuna sveitarfélagsins fyrir væntanlegt útboð þá verða kostnaðartölur ekki gerðar opinberar fyrr en útboði er lokið.

Kostnaður lækkar

Mig langar til að kynna fyrir ykkur núverandi kerfi, og kerfi í nokkrum öðrum sveitarfélögum. Þið getið svo aflað ykkur frekari upplýsinga inn á heimasíðum sveitarfélaga, á vef Umhverfisstofnunar og á vefsíðum ýmissa endurvinnslustöðva t.d. Sorpu og Gámaþjónustunnar.

Sú leið sem varð fyrir valinu hefur vinnuheitið „leið 2“. Hún felur í sér:

  • Tveggja tunnu kerfi. Tvær 240 lítra tunnur fyrir hverja íbúð undir heimilissorp og endurvinnslusorp.
  • Innhengt ílát fyrir lífrænan úrgang.
  • Sorphiðraá þriggja vikna fresti.
  • Þeir sem vilja örari hirðingu geta samið beint við verktaka og greiða verktakanum fyrir það.
  • Þeir sem þurfa stærri tunnur/fleiri tunnur við sitt hús geta haft samband við umhverfisfulltrúa og rökstutt þörf fyrir annarri tunnu.
  • Gámastöðin/grenndarstöðinn er Funi sem tekur endurgjaldslaust við heimilissorpi og endurvinnslusorpi frá einstaklingum.

Umhverfisnefnd valdi þessa leið vegna þess að hún er umhverfisvænni en sú sorphirða sem er við lýði núna. Hún er ódýrari og hefur minnst rask í för sér, þó svo að þjónustan skerðist lítillega. Með þessari leið vill umhverfisnefnd ganga í takt við umhverfisvottun sveitarfélagsins, hvetja íbúa til að vera meðvitaða um það sorpmagn sem þeir láta frá sér og ekki síst að minnka sorp. Rúsinan í pylsuendanum er að kostnaður Ísafjarðarbæjar og íbúa lækkar með nýju og nútímalegra fyrirkomulagi.

Núverandi leið:

  • Tveggja tunnu kerfi. Tvær 240 lítra tunnur.
  • Innhengt ílát í eigu verktaka sem íbúar fá endurgjaldslaust.
  • Hirðing á tveggja vikna fresti, þ.e. 26 hirðunardagar í ári.
  • Gámastöðin/grenndarstöðinn Funi sem tekur endurgjaldslaust við heimilissorpi og endurvinnslusorpi frá íbúum.

Árið 2015 var 591 tonnum af rusli keyrt frá Funa til urðunar í Fíflholti í Borgarfirði og kostnaður við flutning og urðun nam 21,5 milljón kr. Endurvinnslusorp var árið 2015 um 150 tonn og hefur undanfarin ár verið 17-20% af heildarmagni sorps. Í dag eru sorphirðu- og förgunargjöld í Ísafjarðarbæ 46.641 kr. í þéttbýli og 31.688 kr í dreifbýli.

Nokkur dæmi

En hvernig er sorpmálum háttað í öðrum sveitarfélögum? Skoðum dæmi:

Akureyrarbær:

  • Ein tunna losið á tveggja vikna fresti. (240l)
  • Innhengt ílát fyrir lífrænan úrgang losað á tveggja vikna fresti.
  • Íbúar þurfa sjálfir að losa sig við endurvinnsluefni á grenndarstöðvum sem eru átta og yfirleitt staðsettir nálægt verslunarkjörnum.
  • Íbúar farið með endurvinnsluefni á Gámavöll sem er móttökustaður.
  • Auka tunna við íbúð kostar auka sorphirðugjald á íbúð. Ef íbúum dugar ekki ein tunna vegna þess að um mikið magn af heimilissorpi er að ræða, eru þeir hvattir til að huga betur að flokkun, einnig geta þeir sótt um að fá aðra tunnu en þurfa þá jafnframt að greiða tvöfalt sorphirðugjald.
  • Íbúar frá maíspoka fyrir lífræna úrganginn í upphafi árs, ef birgðir klárast er þeim bent á að kaupa sjálfir poka.
  • Íbúar fá klippikort sem aðgangskort inn á Gámavöllinn.Klippikortið er sent út með fasteignagjöldum og veitir átta fríar losanir á 0,25 rúmmetrum af sorpi. Ef íbúar þurfa að losa sig við meira magn yfir árið geta þeir keypt nýtt kort á 15.000 kr.

Sorphirðugjald á Akureyri er 37.900 kr á tunnu.. Einnig eru í gildi ákveðnar reglur um staðsetningu sorpíláta. Hægt er að fræðast meira um sorphirðu Akureyrabæjar á vefsíðu sveitarfélagsins.

Fljótsdalshérað:

  • Þriggja tunnu kerfi er á Flótsdalshéraði. Ein tunna fyrir almennan úrgang, önnur fyrir flokkaðan úrgang og sú þriðja fyrir lífrænan úrgang.
  • Tunnan undir lífræna úrganginn er 120 lítrar og er losuð á tveggja vikna fresti á sumrin, en mánaðarlega á veturna.
  • Heimilissorp og endurvinnslusorp er sótt mánaðarlega. Ef íbúar óska eftir fleiri tunnum þarf að greiða sérstaklega fyrir það.
  • Íbúar geta komið með allt að 50 kg af sorpi sem til fellur á heimili endurgjaldslaust á móttökustöð. Þar er átt við t.d. gler, dósir, plast og pappa.

Rukkað er fyrir hverja íbúð kr. 25.853 kr á ári. Nánar er hægt að fræðast um gjaldskrá Fljótsdalshéraðs á vefsíðu sveitarfélagsins.

Reykjavíkurborg:

Í Reykjavík er kerfið frekar flókið. Tunnur eru sóttar eftir þörfum íbúa sem geta óskað eftir mörgum tunnum í mismunandi stærðum. Íbúar þurfa að greiða fyrir hverja tunnu og fyrir samrekstur á endurvinnslustöðvum innan sveitarfélagsins.

  • Heimilissorp er að jafnaði losað á tveggja vikna fresti.
  • Þeir sem eru með lítið sorp geta fengið minni tunnu (120 l) og greiða þá minna.
  • Íbúar þurfa að greiða skrefagjald ef tunnur eru geymdar of langt frá götu .
  • Einnig þurfa þeir að greiða aukagjald ef sorpbíll þarf að koma aukaferð til að sækja sorp.
  • Hægt er að fara með endurvinnslusorp á grenndarstöðvar.
  • Grunngjald á íbúð er 13.340 kr, fyrir eina heimilistunnu (240l) og fyrir losun á tveggja vikna fresti er greitt 800 kr. Hægt er að fá tunnur undir flokkaðan heimilisúrgang og greiðist þá aukalega 9.300 kr á tunnu og þær eru losaðar á þriggja vikna fresti.

Annars má skoða gjaldskránna betur á vefsíðu Reykjavíkurborgar.

Á ekki að vera pólitík

Sorphirða er ekki pólitískt mál. Hún er umhverfismál, heilbrigðismál og samfélagslegt mál. Umhverfisnefnd vill vinna þetta útboðsmál vel, í sem mestri sátt við íbúa, náttúruna og framtíðina.Þar hefur ekki ríkt meirihluti/minnihluti heldur hafa allir lagt sig fram um að koma með hugmyndir, leita lausna og kynna sér hvað önnur sveitarfélög eru að gera. Við höfum nú skilað málinu af okkur að mestu til þess að hægt sé að vinna útboðsgögn. Áætlað er að þau verði tilbúin í haust. Fram að þeim tíma gefst íbúum tækifæri til að kynna sér málið og koma með athugasemdir og viljum við hvetja íbúa til að gera það. Með nýrri leið sjáum við fram á að geta lækkað gjöld á íbúa, en það krefst samvinnu allra og sátt um málaflokkinn. Hver á t.d að borga fyrir óvirka úrganginn minn? Á ég að gera það, eða allir íbúar sveitarfélagsins?

Nanný Arna Guðmundsdóttir, formaður umhverfis- og framkvæmdanefndar

 

DEILA