Skaginn 3X selur fyrir hálfan milljarð í Noregi

Frá undirskrift samnings við Leroy Norway Seafoods AS. Frá vinstri: Jóhann Bæring Gunnarsson Skaginn3X, Kim Gabrielsen Leroy Norway Seafoods, Ragnar A. Guðmundsson Skaginn3X, Skule Karijord og Steffen Andersen báðir frá Leroy Norway Seafoods AS.

Tæknifyrirtækið Skaginn 3X hefur á síðustu misserum skrifað undir stóra samninga við Norsk hvítfisk- og laxafyrirtæki. Heildaverðmæti þessara samninga er upp á hálfan milljarð króna og má þess geta að samningurinn við laxafyrirtækið er stærsti einstaki samningur fyrir Ísafjarðarhluta fyrirtækisins frá upphafi. Þessir samningar innihalda SUB-CHILLING™ kerfi sem er einnig stærsti tankur sem fyrirtækið hefur framleitt og uppþíðingarkerfi fyrir Leroy Norway Seafoods Group sem er einn af stærstu hvítfiskframleiðendum í Skandinavíu.

Ragnar Guðmundsson, sölustjóri Skagans 3X í Skandinavíu segir mikil tækifæri fyrir íslensk tæknifyrirtæki í sjávar og laxaiðnaðinum í Noregi. „Það virðist vera mikil hreyfing varðandi endurnýjun á vinnslubúnaði í Noregi og Norðmenn horfa sérstaklega til nýrrar tækni sem gefur betri sjálfvirkni, gæði og nýtingu á aflanum. Fyrirtækið hefur fengið mikla athygli sérstaklega meðal laxaframleiðenda í Noregi og nýjasta uppsetning fyrirtækisins í Noregi var rétt að ljúka en það var uppsetning á SUB-CHILLING kerfi fyrir norska laxarisann Grieg Seafood,“ segir Ragnar.

Verkefnastaða fyrirtækisins hefur aldrei verið betri og eru pantanir farnar að hlaðast upp vel fram á næsta ár.

DEILA