Sex mánaða skilorð fyrir líkamsárás

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt 19 ára gamlan mann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og fyrir brot gegn valdstjórninni. Líkamsárásin átti sér stað fyrir utan Félagsheimilið í Bolungarvík í júlí í fyrra. Í ákæru kemur fram að ákærði veittist að manni með ítrekuðum spörkum og höggum í líkama og höfuð.

Í ágúst í fyrra reyndi ákærði ítrekað að hrækja á lögreglumenn við skyldustörf í Hafnarstræti á Ísafirði. Hann var handtekinn og á lögreglustöðinni tók hann tvo lögregluþjóna hálstaki, reif í hár hins þriðja svo lokkur rifnaði úr og beit í hanskaklædda hönd fjórða lögregluþjónsins.

Ákærði viðurkenndi sök sína og málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu. Honum er gert að greiða 250 þúsund kr. í miskabætur vegna líkamsárásarinnar og 318 þúsund kr. í málsvarnarlaun og sakarkostnað.

DEILA