Reykjavíkurborg vill sekta bíla á nagladekkjum

Reykjavíkurborg hefur óskað eftir því við samgönguráðherra að sett verði lög sem heimili sveitarfélögum að sekta þá sem aka á nagladekkjum.  „Þannig að sveitarstjórnum verði í sjálfsvald sett að innheimta gjald af notkun nagladekkja. Það er vitað að nagladekkin valda gríðarlegu tjóni á götunum. Það er vitað að þau slíta götunum eða malbikinu 60 til 100 sinnum meira en venjuleg dekk. Það er áætlað að sá kostnaður hlaupi á 2 til 300 milljónum á hverju ári,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar á vef RÚV.

Hann bendir einnig á að nagladekkin valdi svifryksmengun sem í Reykjavík fer allt of oft yfir heilsuverndarmörk, sérstaklega á veturnar.

Fyrir fimm árum voru 35% bíla í borginni á nöglum en síðasta vetur óku 47% um á nagladekkjum. Hjálmar segir hluta af skýringunni liggja í gífurlegri fjölgun bílaleigubíla en þeir eru allir á nagladekkjum á veturnar. „Ég hef heyrt að tryggingafélögin geri það að skyldu og skilyrði til að tryggja þessa bíla að þeir séu á nagladekkjum á veturna,“ segir Hjálmar.

Hann segir að tillagan hafi ekki verið útfærð, til að mynda hvort sekta eigi alla bíla, hvaðan sem þeir koma af landinu.

DEILA