Pakkað í vörn

Eins og dyggir lesendur Bæjarins besta hafa tekið eftir þá hefur blaðið verið frekar metnaðarlaust frá áramótum en í þessu eins og flestu öðru þarf að sníða sér stakk eftir vexti. Blaðið í gær var síðasta blað fyrir sumarfrí en það mun að öllum líkindum koma í breyttri mynd þegar líða tekur að hausti. Útburðarkostnaður hækkar um þriðjung frá 1. júní fyrir blað í þessu broti  og við því verður væntanlega brugðist með breyttu broti. Vefurinn heldur sínu striki enda afar vinsæll og samfélaginu mikil nauðsyn.

Jón Hallfreð Engilbertsson og Anna Sigríður Ólafsdóttir létu af störfum um mánamótin og þá mun nú ýmsum bregða við. Halli hefur um árabil brotið um blaðið, prentað grafljóð, hannað auglýsingar, pantað reikninga, umslög og afgreiðsluseðla, skorið pappír o.fl. o.fl fyrir viðskiptavini okkar.

Annska hætti einnig um mánamótin eins og áður segir, en menning og listir hafa verið hennar ær og kýr. Bæði eru þau miklir gleðigjafar og eru kvödd með söknuði og þakklæti.

Útgáfa Bæjarins besta og bb.is er til sölu og því verða ekki teknar neinar stórar ákvarðanir um reksturinn, en prentþjónustan sem Halli hefur sinnt er ekki lengur í boði.

Við höfum því pakkað í vörn, í bili, en sóknin er undirbúin og við munum vinna leikinn.

Bryndís Sigurðardóttir, ritstjóri

DEILA