Ofhleðsla minni báta veldur áhyggjum

Nauðsynlegt er að skoðunaraðilar, jafnt Samgöngustofa sem faggiltar skoðunarstofur, geri sérstaka úttekt á því hvort stöðugleikagögn báta sýni með skýrum hætti hver leyfileg hámarkshleðsla þeirra er og jafnframt að og að fríborðsmerki séu til staðar og þeim við haldið. Í grein eftir Jón Bernódusson, fagstjóra rannsóknar, þróunar og greiningar hjá Samgöngustofu, í helgarblaði Morgunblaðsins kemur fram að fagaðilar hafa áhyggjur af ofhleðslu minni báta. Hann tekur fram að vegna aflahámarks eigi þetta ekki við um strandveiðibáta. Hann skorar á sjómenn og útgerðir að virða ákvæðin um hámarkshleðslu og láti öryggi skips og áhafnar ganga fyrir þeirri tilhneigingu að hlaða bátinn endalaust. „Að öðrum kosti verður nauðsynlegt að ofhleðsla skips verði gerð refsiverð þannig að um fjársektir verði að ræða eða jafnvel enn harðari refsingar. Ofhleðsla felur í sér hættu á því að illa fari. Í versta tilfelli týnir áhöfnin lífi og eignatjón verður algert. Þá er til lítils róið og til lítils aflað og ættu skipstjórnarmenn ávallt að hafa þetta hugfast,“ segir hann.

DEILA