Níu af tíu með hjálm

VÍS hefur síðustu sex ár gert könnun á hjálmanotkun hjólreiðamanna, á sama tíma og Hjólað í vinnuna átakið hefur staðið yfir. Töluverð breyting hefur orðið á hjálmanotkun hjólreiðafólks á þessum sex árum. Í ár var hjálmanotkun könnuð hjá 1.304 hjólreiðarmönnum og voru 89% þeirra með hjálm. Það hlutfall var einungis 74% fyrir sex árum.

Öll árin hafa kannanirnar verið gerðar á fjórum mismunandi stöðum; Í Vesturbænum, á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, í Fossvoginum og við Geldingarnes. Sama fylgni hefur verið öll árin, en eftir því sem nær dregur miðbænum er hjálmanotkunin minni. Í ár var hún mest við Geldinganesið eða 94%, en minnst í Vesturbænum eða 77%. Hjálmanotkun er einnig betri á öllum stöðum á morgnana, að meðaltali 92%, á móti 84% seinni partinn.

Flest árin hefur sýnileikafatnaður jafnframt verið skoðaður. Í ár voru 32% hjólreiðamanna í slíkum fatnaði og hefur það hlutfall verið svipað öll árin.

Mikilvægt að hafa hjálma rétt stillta 

Ekki er nægjanlegt að hafa bara einhvern hjálm, stilltan eftir hentugleika, á höfðinu. Hjálmurinn þarf að vera ætlaður fyrir hjólreiðar, vera innan þess líftíma sem framleiðandi gefur upp og rétt stilltur. Rétt stilltur hjálmur situr beint ofan á höfðinu, eyrun í miðju V forminu og einungis einn til tveir fingur komast undir hökubandið.

Erlendar rannsóknir sýna að hjálmurinn ver höfuð einstaklinga í allt að 75% tilfella  fyrir alvarlegum höfuðáverkum. Það er því til mikils að vinna að nota þetta sjálfsagða öryggistæki.

DEILA