Neyðarkall frá Háskólasetri

SIT hópurinn síðasta sumar í heimsókn á Melrakkasetrinu

Enn er eftir að finna húsaskjól fyrir nokkra háskólanema sem koma í vettvangsnám til Ísafjarðar frá 18. júní – 5. júlí. Á heimasíðu háskólasetursins kemur fram að góð reynsla sé af móttöku slíkra nema á Ísafirði og nágrenni en frá árinu 2012 hefur Háskólasetrið haft milligöngu um heimagistingu fyrir hópa á vegum SIT skólans, School for International Training (SIT) í Vermont í Bandaríkjunum.

Nemendahópurinn mun sitja námskeið um endurnýjanlegra orku og umhverfishagfræði sem nefnist Iceland: Renewable Energy, Technology, and Resource Economics. Námskeiðið stendur yfir í samtals sjö vikur og hefur verið í boði frá því 2007. Síðastliðið haust hleypti SIT Study Abroad nýrri vettvangsbraut af stokkunum í samvinnu við Háskólasetrið. Viðfangsefnið er lofslagsmál á Norðurslóðum og nefnist námsbrautin Iceland and Greenland: Climate Change and the Arctic. Gisting hjá fjölskyldum er einnig í boði fyrir þessa nemendur.

Frá lokahófi sumarnemanna og íslensku fjölskyldanna þeirra árið 2015. Mynd. uw.is

Markmiðið með heimagistingu er að gefa ungmennunum tækifæri til taka þátt í lífi fjölskyldu og kynnast þannig íslenskri menningu og tungu. Nemendurnir hafa í gegnum tíðina gist hjá fjölskyldum ýmist á Ísafirði, í Hnífsdal eða í Bolungarvík.

Áhugasamir skuli setja sig í samband við Pernillu Rein í síma 820 7579 en nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Háskólasetursins

bryndis@bb.is

DEILA