Myndavélavöktun í Hælavíkurbjargi

Hælavíkurbjarg.

Umhverfisstofnun hefur veitt Yann Kolbeinssyni líffræðingi, fyrir hönd Náttúrustofu Norðausturlands, leyfi til að setja upp sjálfvirka myndavél og sólarsellu við Langakamb við Hælavíkurbjarg. Stefnt er að því að setja vélina upp í júlí ef veður leyfir og mun Náttúrustofa Vestfjarða aðstoða við uppsetninguna

Yann segir í samtali við blaðamann Morgunblaðisins að myndavélin í Hælavíkurbjargi sé fimmta sjálfvirka myndavélin við fuglabjarg hér á landi til að fylgjast með bjargfuglum, einkum svartfuglunum langvíu og stuttnefju. Fyrsta myndavélin var sett upp á Skoruvíkurbjargi á Langanesi fyrir tveimur árum. Í apríl var auk þess sett upp myndavél í Elliðaey í Vestmannaeyjum og í maí í Grímsey og í Látrabjargi. Landeigendur veittu leyfi fyrir uppsetningu búnaðarins í björgunum en einnig þurfti leyfi Umhverfisstofnunar til að setja búnaðinn upp í friðlandinu á Hornströndum.

Markmiðið er að fá upplýsingar um ungaframleiðslu fuglanna. Auk þess geta fengist upplýsingar um ungaframleiðslu fýls og ritu, þar sem svo hagar til að þær tegundir verpa á sama stað og svartfuglarnir. Verkefnið er liður í sjó- fuglavöktun Náttúrustofu Norð- austurlands og fleiri náttúrustofa

Hver myndavél tekur mynd á klukkustundar fresti allan ársins hring. Lítið viðhald fylgir vélunum nema hvað skipta þarf um minniskort að minnsta kosti einu sinni á ári.

Sérstakt forrit er notað til að lesa úr myndunum. Það greinir m.a. hvaða fuglar liggja á eggjum, hvenær eggin klekjast og hvenær unginn yfirgefur sylluna sína. Þær upplýsingar verða síðan notaðar til framhaldsúrvinnslu talninganna. Danskir vísindamenn hafa notað þetta forrit til að meta afkomu svartfugla í Grænlandi með góðum árangri.

DEILA