Minni mengun í Atlantshafi en nýjar ógnir

Plast í hafi er vaxandi vandamál.

Styrkur ýmissa mengunarefna í norðaustur-Atlantshafi fer minnkandi og ástand sumra fisktegunda batnandi, samkvæmt nýrri úttekt OSPAR-samningsins á ástandi hafsvæðisins. Hins vegar er rusl í hafi viðvarandi vandi, ekki síst plast. Mikil niðursveifla hefur verið í mörgum stofnum sjófugla við norðanvert Atlantshaf. Til lengri tíma eru áhrif loftslagsbreytinga og súrnun hafsins mikið áhyggjuefni, en veruleg óvissa um hver áhrifin verða á lífríki hafsins.

Ný úttekt OSPAR var kynnt á ársfundi samningsins, sem lauk í gær í Cork á Írlandi. Úttektin byggir á viðamikilli vöktun á vegum samningsins og mati sérfræðinga á niðurstöðum vöktunar og þróun sem hægt er að lesa úr henni. Umhverfisstofnun og fleiri aðilar komu að úttektinni fyrir Íslands hönd. Ísland er eitt af fimmtán aðildarríkjum samningsins, sem heldur upp á 25 ára afmæli sitt á þessu ári. Markmið OSPAR-samningsins er að draga úr mengun NA-Atlantshafsins og vernda lífríki þess.

Mengun af völdum ýmissa þungmálma og þrávirkra lífrænna efna hefur minnkað síðan 2010, þegar síðasta úttekt var gerð, sérstaklega á PCB-efnum. Þó er staðbundin efnamengun vandi sums staðar og styrkur kadmíums og PAH-efna á úthafinu hefur vaxið. Losun geislavirkra efna í sjó í NA-Atlantshafi hefur minnkað verulega frá því sem var. Sömuleiðis hefur olíumengun haldið áfram að dragast saman, svo og efnamengun sem tengist olíuvinnslu á hafi. Árangur varðandi minni mengun má að hluta til þakka reglum sem OSPAR hefur sett til að draga úr losun mengandi efna frá landi og starfsemi á hafi.

OSPAR hefur eflt vöktun á rusli í hafi á síðustu misserum, en rusl er útbreitt á ströndum, í hafinu og á hafsbotni. Plast er þar algengast; um 90% rusls á ströndum er plast. Plastið brotnar niður í hafinu og verður að svokölluðu örplasti. Örplast er einnig notað í ýmsar vörur og berst í hafið en stefnt er á að draga úr notkun þess í snyrtivörum. Um 93% fýla við Norðursjó eru með plast í maga og hefur það hlutfall haldist svipað um nokkra hríð. Á OSPAR-fundinum var samþykkt ákall um reglur til að draga úr notkun örplasts í ýmsum vörum, en Ísland hefur áður undirritað yfirlýsingu um að stefna skuli á bann við örplasti í snyrtivörum og styður markmið um að hætta notkun þess.

OSPAR hefur eflt vöktun á ástandi ýmissa tegunda lífvera í sjónum og bætt mat á þróun vistkerfis hafsins. Ýmsar tegundir og stofnar fiska eru í vexti og telja sérfræðingar að hluti af skýringunni sé að fiskveiðistjórnun sé að skila árangri. OSPAR sinnir ekki fiskveiðistjórnun, en á samvinnu á ýmsum sviðum við Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðið, NEAFC. Mörgum stofnum sjófugla hefur hnignað verulega á síðasta aldarfjórðungi; loftslagsbreytingar og fiskveiðar kunna að vera orsakaþættir þar, að mati vísindamanna.

Verndarsvæðum á hafi hefur fjölgað mjög frá síðustu úttekt OSPAR og flatarmál þeirra stækkað. Árið 2010 voru tilnefnd 159 verndarsvæði á skrá OSPAR, sem náðu yfir rúmt 1% af heildarhafsvæðinu, en 2016 voru svæðin orðin 448 og náðu yfir tæplega 6% svæðisins.

DEILA