Mikið um að vera hjá eldri borgurum Ísafjarðar og nágrennis

Þann 15. júní ætla eldri borgarar í Félagi eldri borgara á Ísafirði og nágrenni að safnast saman í langferðabíl og heimsækja granna okkar á suðurfjörðum Vestfjarða. Komið verður við á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði en í Flókalundi verður snæddur kvöldverður. Það eru þær Árný (456-3769) og Valdís (456-3549) sem taka við skráningum en skráningarfrestur er til 11. júní.

Að sögn þeirra Árnýjar og Valdísar er starfið í félaginu, sem telur rúmlega 300 félagsmenn,  blómlegt og fjölbreytt. Boccia, bingó, félagsvist og sundleikfimi á veturna og púttað og ferðast á sumrin. Undanfarin tvö ár hafa sumarferðirnar verið á erlenda grund en nú hefur verið tekin ákvörðun um að fara annað hvert ár innanlands.

Félagið hefur aðsetur í Naust og nýir félagar eru ætíð velkomnir segja þær stöllur og best að hringja í síma félagsins 891 6161 til að skrá sig í félagið.

Í september stendur svo til að fara suður og sjá Ellý í Borgarleikhúsinu.

Innan félagsins er rekið Íþróttafélagið Kubbur og framundan hjá þeim er að fara á Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði síðustu helgina í júní, þar munu félagsmenn Kubbs keppa í Boccía, pútti og golfi. Það eru tæplega 30 félagsmenn sem munu bæði sjá og sigra í Hveragerði.

Þátttakendur í golfi á Landsmóti UMFÍ 50+ sem haldið var á Ísafirði í fyrra.

 

DEILA