Edinborgarhúsið ætlar að bjóða bæjarbúum á sýningu heimildarmyndarinnar Lífshlaupið. Myndin fjallar um Vilberg Vilbergsson sem er betur þekktur sem Villi Valli rakari, tónlistarmaður og lífskúnstner á Ísafirði. Einnig verður sýnd upptaka af tónleikum með Villa Valla og félögum sem haldnir voru í Edinborgarhúsi í nóvember 2016 en þar var leikin blanda af sígildum jazzperlum og frumsömdum lögum eftir Villa Valla. Lög eins og Don´t get around much anymore, Jeepers Creepers, Vikivaki Jóns Múla, Lover, come back to me, Þakið er lekt og Fall krónunnar. Sýningin verður á miðvikudagskvöld kl. 20. Myndin er eftir Snævar Sölvason og um kvikmyndatöku sá Loga Ingimarsson og hljóðupptaka og -vinnsla var á höndum Matthíasar M.D. Hemstock. Framleiðandi myndarinnar er Menningarmiðstöðin Edinborg.
Villa Valla þarf vart að kynna fyrir Vestfirðingum en hann má auðveldlega kalla krúnudjásn í vestfirsku tónlistarlífi og sennilega víðar. Villi Valli hefur staðið tónlistarvaktina linnulítið í rúm 70 ár. Hann hóf sinn feril á dansböllum 11 ára gamall á Flateyri. Hann var í forsvari fyrir fjölda hljómsveita og er enn að rúmlega áttræður. Eftir hann liggja nokkrir geisladiskar með eigin efni sem náð hafa töluverðri útbreiðslu og nýtur hann virðingar um allt land fyrir sitt listframlag. Villi Valli er heiðurslistamaður Ísafjarðarbæjar.