Lækkandi sjávarhiti boðar svalari tíð

Vísindamenn Hafró að mæla hitastig sjávar.

Ný norsk rannsókn bendir til að reglubundin sveifla sé á hitastigi Golfstraumsins. Kuldi í sjónum austur af Nýfundnalandi er sjö ár að komast að Noregsströndum, en á miðju því tímabili finnum við Íslendingar fyrir meiri svala. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, sagði frá þessu á Morgunvaktinni á Rás 1.

Í nýlegum vorleiðangri Hafrannsóknastofnunar kom í ljós að fyrir vestan land er hiti um eða undir meðallagi og selta minni en undanfarin ár. Hlýi sjórinn fyrir sunnan land hefur líka tapað seltu. Sjórinn sem kemur að landinu er ekki jafn hlýr og á síðustu undangengnu árum. Þegar selta er mikil bendir það til að sjórinn sé kominn langa leið og beri með sér mikinn varma. Á móti þessu kemur að sjórinn fyrir norðan land er enn hlýr, en fer þó kólnandi. Einar Sveinbjörnsson, verðurfræðingur,  fór yfir þetta á Morgunvaktinni og rýndi í vísbendingar sem mælingar á sjávarhita fela í sér um veður á næstu árum. „Ef við förum lengra og skoðum sjávarhita suður og suðvestur í höfum þá er er bara mjög kalt.“

Í norsku rannsókninni kemur fram að reglubundnar fjórtán ára sveiflur séu á hitastigi í Golfstraumnum sem leitar hingað norður eftir. „Þannig að við erum kannski búin að upplifa hlýindi í sjónum og þar með heitari veðráttu hérna síðustu árin, sérstaklega árin 2003 til 2014. Síðan er sjávarhitinn farinn að síga,“ sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á Morgunvakt Rásar 1 í morgun.

DEILA