Knattspyrnusaga Ísfirðinga glóðvolg úr prentsmiðjunni

Höfundurinn með sína nýjustu bók.

Eins og áður hefur verið greint frá verður Púkamótið haldið á Ísafirði um helgina. Mótið verður sett á gervigrasvellinum á Torfnesi í dag kl. 17 og þá verða gamlar kempur í gullaldarliði ÍBÍ heiðrarðar, en um er að ræða liðsmenn sem komu liðinu upp í efstu deild árið 1981. Í kjölfarið verður vítaspyrnukeppni þar sem keppt verður í aldursflokkunum 40-50 ára, 50-60 ára og 60+ ára. Púkamótið í ár sker sig frá öðrum mótum þar sem stjórn félagsins ákvað í fyrra að saga ísfirskrar knattspyrnu yrði rituð. Sigurður Pétursson, sagnfræðingur og áhugamaður um knattspyrnu, var fenginn til verksins og afurðin er heljarmikið rit þar sem knattspyrnusagan á Ísafirði er rakin frá því menn og konur fóru fyrst að stunda „fallega leikinn“ upp úr aldamótunum 1900 og fram til stofnunar/endurreisnar Vestra í fyrra.

Útgáfuteiti bókarinnar verður í kvöld kl. 19.30 í skíðaskálanum í Tungudal og eru velunnarar bókarinnar, þeir sem hafa skrifað sig fyrir bókinni og væntanlegir kaupendur boðnir hjartanlega velkomnir. Sigurður ætlar að lesa valda kafla úr bókinni og í boði verða léttar veitingar.

Hið eiginlega Púkamót hefst á gervigrasvellinum kl. 11.30 á morgun.

DEILA