Íbúakönnun um framtíð Sundhallarinnar

Sundhöllin á Ísafirði.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að ráðast í könnun meðal íbúa um framtíð Sundhallarinnar á Ísafirði. Ekki er búið að útfæra könnunina en meðal þess sem gæti verið spurt að er hvort íbúar vilji loka lauginni, gera lítilsháttar endurbætur á húsinu eða ráðast í stórtækar endurbætur í anda hönnunarsamkeppninnar sem var haldin í vetur.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að í umræðum um sundmál á Ísafirði hefur verið ákveðin krafa um byggingu sundaðstöðu á Torfnesi í tengslum við önnur íþróttamannvirki á staðnum. Einnig hefur verið í umræðunni að réttast sé að loka sundlauginni við Austurveg og að íbúar á Ísafirði sæki til Bolungarvíkur eða í aðra byggðarkjarna Ísafjarðarbæjar til að iðka íþróttina. Því er ljóst að skoðanir íbúa á málinu eru margar og ólíkar, það sé því rökrétt skref á þessum tíma að láta gera könnun á afstöðu íbúa til málsins.

Tillaga bæjarfulltrúa Í-listans um íbúakönnun var samþykkt með 7 atkvæðum en Jónas Þór Birgissson og Martha Kristín Pálmadóttir, bæði úr Sjálfstæðisflokki, sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

DEILA