Hátíðlegt á Hrafnseyri

Hátíðardagskrá á 17. júní verður með hefðbundnum hætti á Hrafnseyri, fæðingarstað þjóðhetjunnar Jóns Sigurðssonar. Dagskráin byrjar með hátíðarguðþjónustu kl.13. Sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir, prestur í Þingeyrarprestakalli, þjónar fyrir altari og sr. Elín Salóme Guðmundsdóttir, prestur í Patreksfjarðarprestakalli, prédikar.

Hin eiginlega þjóðhátíð á Hrafnseyri verður sett kl. 14.15. Að loknu tónlistaratriði Jóns Gunnar Biering Margeirssonar flytur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hátíðarræðu. Eftir ræðu ráðherra verður bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar útnefndur. Kl. 15 verður háskólahátíð með útskrift frá Háskólasetri Vestfjarða.

Kaffi og afmælisterta í boði Hrafnseyrar verður á meðan á dagskrá stendur fram til kl. 17:00. Einnig verður hægt að kaupa súpu með brauði.

Rútuferðir verða frá Ísafirði, fólki að kostnaðarlausu. Rútan fer frá Háskólasetri Vestfjarða kl. 11.30 og stoppa þremur mínútum síðar við Hlíf og heldur þaðan til Hrafnseyrar. Rútan fer til baka frá Hrafnseyri kl. 17. Fólki er bent á að skrá sig í rútuferðirnar með því að senda línu á reception@uwestfjords.is eða hringja í 450 3040.

DEILA