Hægt að endurnýja lyfseðla á netinu

Heilbrigðisyfirvöld tekið nýja tækni í notkun sem auðveldar einstaklingum að nálgast helstu upplýsingar í heilbrigðiskerfinu. Heitir þetta kerfi Heilsuvera og er hægt að skrá sig inn á það á vefnum www.heilsuvera.is. Til þess að geta skráð sig inn í Heilsuveru þarf rafræn skilríki.

Í Heilsuveru sér fólk helstu upplýsingar um það í sjúkrakerfum landsins. Einnig getur það sett inn beiðni um endurnýjanir lyfja og þarf þá ekki að hringja í viðkomandi stofnun til þess. Fær læknir þá erindi þess efnis að lyf þarfnist endurnýjunar og klárar hann þá beiðni að því gefnu að ekkert sé athugavert við slíka beiðni.

Í kerfinu er sumsstaðar hægt að panta tíma rafrænt hjá lækni, en ekki er hægt að bjóða upp á þá þjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vegna þess hve vinnutími lækna er óreglulegur. Þeir þurfa stundum að vera á stofu, stundum á vakt og stundum á deild. Vegna manneklu er engin regla á viðveru lækna á mismunandi deildum og því ekki hægt að skipuleggja sérstaka tíma í rafræna bókun.

DEILA