Göngugarpar á Ströndum

Reynir Traustason og Halldóra Jónsdóttir á toppi varnargarðsins á Flateyri

Hinn Flateyrski fréttahaukur og göngugarpur Reynir Traustason er nú aftur mættur á Norðurfjörð til sumardvalar. Þar verður hann og kona hans Halldóra Jónsdóttir skálaverðir í skála Ferðafélagsins og saman standa þau fyrir hinum ýmsum uppákomum sem flestar felast í hressilegri hreyfingu ganglima um fjöll og firnindi.

Reynir hefur á undanförnum árum vakið athygli á nauðsyn hreyfingar og hefur sjálfur gengið á Úlfarsfell nákvæmlega þúsund sinnum. Og honum til heiðurs, og öðrum göngugörpum sem hafa gengið oftar enn hundrað sinnum á Úlfarsfell, var efnt til skemmtigöngu á Úlfarsfell þann 31. maí og var takmarkið að ná 1000 göngufélögum á fellið. Skemmtikraftar voru fluttir með þyrlu á svæðið, en á stokk stigu til dæmis Raggi Bjarna og Bjartmar Guðlaugsson.Takmarkið náðist og gott betur því meira en 2000 sálir tóku þátt.

Reynir Traustason og Raggi Bjarna glaðbeittir á toppi Úlfarsfells

Nú eru Reynir og Halldóra sem sagt komin vestur á Strandir og taka þar á móti gönguhópum og skipuleggja göngur. Eða eins og Reynir segir í færslu sinni á Facebook í dag

„En ég er sem sagt farinn í fámennasta hrepp landsins þar sem einstök náttúrufegurð kallast á við fallegt mannlíf og sagan er á hverju strái. Það eru allir velkomnir til að kynna sér endimörk heilsársbyggðar á Ströndum.“

Bryndis@bb.is

DEILA