Gistinóttum á hótelum fjölgar um 41%

Gistinætur á hótelum í apríl voru 292.100 sem er 25% aukning miðað við apríl 2016. Gistinætur erlendra gesta voru 84% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 26% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 21%. Flestar gistinætur á hótelum í apríl voru á höfuðborgarsvæðinu eða 181.900 sem er 16% aukning miðað við apríl 2016 og voru það 62% allra gistinátta. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar um gistinætur fyrir aprílmánuð, sem ná yfir hótel sem opin eru allt árið. Í þeim tölum eru gististaðir á Vesturlandi og Vestfjörðum taldir saman og voru gistinæturnar 11.231 sem er 41% aukning frá því í apríl á síðasta ári er þær voru 7.993.

Á tólf mánaða tímabili frá maí 2016 til apríl 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum 4.122.000 sem er 32% aukning miðað við sama tímabil árið áður. Heldur meiri er fjölgunin á Vesturlandi og Vestfjörðum, eða 41%, en síðasta árið voru þær 182.903. Langflestar gistinæturnar eru skráðar vegna heimsókna erlendra gesta og voru Bandaríkjamenn fjölmennasti hópurinn á landsvísu og þar á eftir Bretar.

DEILA