Ársreikningur Súðavíkurhrepps og stofnana var lagður fram til fyrri umræðu í sveitarstjórn í gær. Afgangur af rekstri Súðavíkurhrepps var 23 milljónir kr. sem er umtalsvert meira en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, eða heilum 7 milljónum kr. Veltufé frá rekstri segir til um getu sveitarfélagsins til fjárfestinga og á þeim vígstöðvum er staða hreppsins mun betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Veltufé frá rekstri var 50 milljónir kr. árið 2016 en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir 27 milljóna kr.
Handbært fé sveitarfélagsins við lok ársins var 104 milljónir kr. en áætlun gerði ráð fyrir 77 milljónum kr.
Í bókun sveitarstjórnar segir að rekstarárangurinn á síðasta ári hafi verið framúrskarandi og að reksturinn hafi tekið miklum framförum á kjörtimabilinu. Það sjáist meðal annars á þróun á handbæru fé og veltufé frá rekstri. Árið 2013 var handbært fé Súðavíkurhrepps 24 milljónir kr. en var 104 milljónir kr. á síðasta ári. Veltfé frá rekstri hefur sömuleiðis aukist, en það var 15 milljónir kr. árið 2013 samanborið við 41 milljón kr. á síðasta ári.
„Sjálfstæði sveitarsfélaga er öðru fremur bundið í fjárhagslega sjálfbærni. Með öguðum rekstri og betri afkomu síðastliðinna ára hefur sveitarstjórn treyst sveitarfélagið betur í sessi, og eflt það til að takast á við verkefni framtíðarinnar,“ segir í bókun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps.