Bjart framundan í efnahagslífinu

Ferðaþjónustan dregur vagninn í auknum útflutningstekjum.

Samkvæmt hagspá hagfræðideildar Landsbankans er bjart framundan í íslensku efnahagslífi og líklegt að áframhald verði á þeim lífskjarabata sem verið hefur síðustu ár. Hagfræðideildin spáir 6,7% hagvexti á þessu ári sem kemur þá í kjölfar 7,2% hagvaxtar á síðasta ári. Á næstu tveimur árum er hins vegar gert ráð fyrir að nokkuð dragi úr vextinum en að hann verði góður í samanburði við helstu viðskiptalönd. Þrátt fyrir töluverða spennu í hagkerfinu og mikinn vöxt eru horfur um verðbólguþróun næstu árin góðar.

Í spánni er gert ráð fyrir að megindrifkraftar hagvaxtar á næstu árum verði útflutningur, einkaneysla og fjármunamyndun en að hið fyrstnefnda verði þó veigamest a.m.k. á þessu ári. Gert er ráð fyrir að vöxtur útflutnings verði 10% á þessu ári, borinn af vexti ferðaþjónustu. Áhrif vaxtar í ferðaþjónustu á þessu ári á hagvöxt verða því töluvert mikil. Vöxtur einkaneyslu verður 6,7% á þessu ári og jákvæður bæði árin 2018 og 2019 en vöxturinn á spátímabilinu er studdur af forsendunni um áframhaldandi vöxt kaupmáttar. Gert er ráð fyrir að verðbólgan fari lítillega yfir verðbólgumarkmið á fjórða ársfjórðungi þessa árs og fyrsta ársfjórðungi næsta árs en að öðru leyti verði hún undir verðbólgumarkmiðinu á spátímabilinu. Ein af lykilforsendum hagstæðrar verðbólguspár er forsendan um frekari styrkingu krónunnar á næstu árum en sú forsenda styðst við væntingar um áframhald á verulegum afgangi á vöru- og þjónustuviðskiptum.

DEILA