Ætla að krefja ráðuneytið svara

Sýsluskrifstofunni í Bolungarvík var lokað um mánaðamótin. Eins og áður hefur verið greint frá var lokuninni mótmælt harðlega af bæjaryfirvöldum í Bolungarvík og sömuleiðis af Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík, segir að engin viðbrögð hafi borist frá stjórnvöldum. „Við ætlum að krefja ráðuneytið svara og við búumst við að fá formleg viðbrögð þá,“ segir hann. Það sem helst stendur upp á ráðuneytið að svara eru yfirlýsingar þegar sýslumannsembættin á Vestfjörðum voru sameinuð. Þá sagði þáverandi innanríkisráðherra að mikil tækifæri fælust í fækkun sýslumannsembætta og stækkun umdæma. Einnig að embættin yrðu í kjölfar breytinganna öflugri og betur í stakk búin til að taka við verkefnum og tækifæri myndu skapast til að flytja verkefni úr miðlægri stjórnsýslu til þeirra.

Að sögn Jóns Páls er innanríkisráðherra búinn að skrifa undir reglugerðarbreytingu sem heimilar að loka skrifstofunni í Bolungarvík. „Það tók innan við tvo virka daga sem mér þykir mjög skjót og örugg stjórnsýsla.“

Sýslumenn og forverar þeirra hafa verið með aðsetur eða útibú í Bolungarvík í 83 ár. Frá 1934 til 1974 voru þeir sem gegndu því embætti sem nú samsvarar embætti sýslumanns nefndir lögreglustjórar og voru þeir jafnframt framkvæmdastjórar sveitarfélagsins sem þá nefndist Hólshreppur. Eftir 5. apríl 1974 er sveitarfélagið fékk kaupstaðarréttindi nefndust þeir sem gegndu embættinu bæjarfógetinn í Bolungarvík og sveitarfélagið Bolungarvíkurkaupstaður. Frá og með þeim tíma hættu þeir jafnframt afskiptum af stjórn sveitarfélagsins.  Árið 1992 varð embætti sýslumanns í Bolungarvík til. Í ársbyrjun 2015 rann embættið inn í sameinað embætti sýslumannsins á Vestfjörðum sem er með aðsetur á Ísafirði. Embættið er með skrifstofur á Patreksfirði og á Hólmavík og þar til um síðustu mánaðamót, í Bolungarvík.

DEILA