Yngsti leikmaðurinn skoraði sigurmarkið

Frá leik Vestra fyrr í sumar.

Vestri lék sinn fyrsta leik í 2. deild Íslandsmótsins í gær. Leikurinn átti að vera á laugardag en vegna þoku komst lið Fjarðabyggðar ekki vestur og leiknum því frestað um sólarhring. Það var fjölmenni í blíðunni  á Torfnesvelli sem fylgdist með nokkuð spræku liði heimamanna klást við Austfirðingana. Vestramenn sýndu strax frá upphafi fína takta, en það vantaði upp á að liðið væri nógu ógnandi fram á við. Markalaust var í hálfleik þegar sex mínútur voru liðnar af seinni hálfleik sýndu Vestramenn lipran samleik sem endaði með því að Þórður Gunnar Hafþórsson skoraði í mark Fjarðabyggðar og kom Vestra yfir. Vestramenn fengu nokkur færi til að gulltryggja sigurinn, en tókst ekki að koma boltanum í markið og endaði leikurinn með eins marks sigri heimamanna.

Þórður Gunnar Hafþórsson.

Þórður Gunnar er á sextánda ári og lýkur 10. bekk í vor. Hann kom inn á sem varamaður á 17. mínútu þegar Francis Adjei meiddist.  Danimir Milkanovic, þjálfari Vestra, verðlaunaði Þórð Gunnar með heiðursskiptingu í uppbótartíma leiksins og fékk leikmaðurinn ungi verskuldað klapp frá áhorfendum.

 

 

 

 

Vestra er spáð upp um deild í spá Fótbolta.net fyrir sumarið, en Fjarðabyggð, er spáð um miðja deild.

Þessi þrjú hafa mætt á völlinn og stutt Ísafjarðarliðin í áratugi.

 

DEILA