Vegtollar fjármagni stórframkvæmdir

Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Jón Gunnarsson, ráðherra Samgöngumála segir í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í gær að hugmyndir um stórframkvæmdir í vegagerð verði kynntar á næstunni. Segir hann að starfshópur undir forystu Eyjólfs Árna Rafnssonar verkfræðings muni á næstu vikum skila tillögum um hvernig ráðast megi í stórframkvæmdir í samgöngum út frá höfuðborgarsvæðinu.

„Hugmyndin sem hópnum var falið að skoða er hvernig greiða megi leiðir út frá Reykjavík; til suðurs til Keflavíkurflugvallar, til austurs með nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss og til vesturs til Borgarness með Sundabraut og nýjum göngum undir Hvalfjörð,“ segir Jón meðal annars í greininni, en hann segir það muni taka áratugi að koma þessum nauðsynlegu samgöngubótum á, ef þær yrðu fjármagnaðar með hefðbundnum hætti.

Jón vill að ríkið og einkaaðilar komið að fjármögnum framkvæmdanna og yrðu veggjöld nýtt til að greiða niður fjármögnun þeirra.

„Ég sé fyrir mér að þeirri fjárhæð sem innheimt yrði í formi veggjalda yrði stillt mjög í hóf gagnvart fjölnotendum, þ.e. þeim sem oft eiga leið um umrædda vegi vegna atvinnu sinnar eða skólasóknar svo dæmi séu nefnd,“ segir Jón og miðar við að notendur stærri bíla og rútubíla sem og þeir sem ekki eiga oft leið um eins og ferðamenn greiði hærra verð.

DEILA