Vaskur hópur tók til hendinni í Aðalvík

Sjálfboðaliðarnir vösku. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Árla á laugardagsmorgun hélt vaskur hópur hreinsunarfólks í Hornstrandafriðlandið til ruslhreinsunar. Það var varðskipið Þór sem sigldi með hópinn til Aðalvíkur en vegna óhagstæðrar norðaustanáttar var stefnunni breytt þar sem upphaflega áætlunin gerði ráð fyrir að í ár yrði hreinsað til í Bolungavík á Ströndum sem illfært var að lenda í við slík veðurskilyrði. Það voru rúmlega þrjátíu manns sem tóku þátt í hreinsuninni að þessu sinni, en hafa sjálfboðaliðar verið duglegir við að bjóða fram krafta sína þegar skipulagðar hreinsanir hafa farið fram í friðlandinu, en þessi er sú fjórða í röðinni.

Hluti af ruslinu. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Gauti Geirsson forsprakki hreinsunarferðanna segir að heilt yfir hafi hreinsunin í ár tekist ótrúlega vel þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að fylgja upprunalega planinu á staðsetningu. Í staðinn var hreinsað á Látrum, í Miðvík og á Sæbóli og þá aðallega plastrusl og netadræsur. Í fjörunni á Látrum var tekið talsvert af dekkjum og köplum og öðru slíku sem má tengja við veru Bandaríkjahers á svæðinu í kalda stríðinu.

Gauti segir sérstaklega skemmtilegt að fá nemendur úr Háskólasetri Vestfjarða með á ári hverju, en þeir hafa verið uppí allt að helmingur þátttakenda: „Þetta tengist mikið námi þeirra og þeim finnst líka frábært að geta gefið til baka til samfélagsins sem þau eru að koma inn í, fyrir utan hvað þau eru dugleg.“

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hversu mikið af rusli fór um borð í Þór að hreinsun lokinni, en það voru allavega einhver tonn. Að hreinsun lokinni var skellt upp grilli í Aðalvík og var hópurinn mettaður með dýrindis lambasteik áður haldið var aftur til Ísafjarðar að kvöldi dags.

Landhelgisgæsla Íslands, Ísafjarðarbær, Vesturferðir, Umhverfisstofnun, Borea Adventures, Vesturverk, Aurora Arktika, Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar, Skeljungur og Gámaþjónusta Vestfjarða styrkja hreinsunarátakið í Hornstrandafriðlandinu.

annska@bb.is

DEILA