Stubbarnir vöktu bæjarbúa með lúðrablæstri

Eflaust hafa einhverjir bæjarbúar á Ísafirði vaknað fyrr í dag en þeir höfðu ætlað sér er árrisulir Stubbar fóru á stjá, undir lúðrablæstri, á fimmta tímanum í morgun. Þessi vorboði hefur sjaldan fallið betur eins og flís við rass og nú er þokan grúfði yfir bænum og má ímynda sér að blessaðir Stubbarnir hafi einvörðungu verið að gefa til kynna staðsetningu sína með þokulúðrum. Undir Stubbabúningunum leynast útskriftarnemendur Menntaskólans á Ísafirði sem dimmitera í dag og vöktu þeir starfsfólk skólans víða um bæinn í morgun áður en þeir héldu í morgunverð til skólameistarahjónanna. Að honum loknum tóku yngri nemendur MÍ á móti þeim með skólablaðinu Cloökunni og hinum ýmsu leikjum og þá var haldið á rúnt um bæinn á gámabíl og svo haldið áfram leikjum. Ekki er nú ólíklegt að einhverjir næli sér svo í smá kríu fyrir lokaballið sem verður haldið í Krúsinni í kvöld.

Útskriftarathöfn Menntaskólans á Ísafirði verður laugardaginn 27. maí kl. 13 í Ísafjarðarkirkju og munu um 50 nemendur útskrifast sem stúdentar, sjúkraliðar, stálsmiðir og vélstjórar. Að venju verður síðan útskriftarkvöldverður í íþróttahúsinu þar sem Lúlú og fjölskylda bjóða upp á veglegt hlaðborð og hljómsveitin Húsið á sléttunni leikur fyrir dansi. Lúlu hefur í árafjöld séð til þess að menntskælingar fái úrvalsfæði og einnig hafa gestir fengið að njóta matargerðarlistar hennar á viðburðum sem þessum, en þetta verður í síðasta skipti sem Lúlú sér um hátíðarkvöldverðinn því hún lætur af störfum við mötuneytið nú í vor.

DEILA