Strandveiðarnar byrjaðar

Strandveiðar hófust í dag. Landinu er að vanda skipt upp í fjögur veiðisvæði. Vestfirskir strandveiðimenn sækja á tvö þeirra. Annars vegar á svæði A sem nær frá Snæfellsnesi til Ísafjarðardjúps og hins vegar svæði B sem nær frá Strandabyggð að Grýtubakkahreppi. Hvert strandvieðileyfi miðast við heimilisfesti útgerða viðkomandi báts og eingöngu er heimilt að landa afla innan þess landsvæðis á veiðitímabilinu. Aflamagn er háð takmörkunum fyrir hvert landsvæði innan hvers mánaðar. Í hlut svæðis A koma  852 tonn í maí, 1.023  tonn í júní, 1.023  tonn í júlí og 512 tonn í ágúst.Á svæði B er heimilt að veiða 521 tonn í maí, 626 tonn í júní, 626 tonn í júlí og 313 tonn í ágúst.

Hver bátur má að hámrki veiða 650 kg á dag. Á vef Fiskostfu kemur fram að á undanförnum árum  hefur borið á því að  nokkuð er um að menn veiði umfram þetta hámark. Endurgreiða þarf andvirði umframaflans í ríkissjóð en sá afli sem um ræðir dregst engu að síður frá þeim afla sem er til skiptanna á veiðunum. Fyrir vikið runnu tæpar  40 milljónir króna í ríkissjóð í fyrra sem ella hefðu farið í vasa strandveiðimanna. Fiskistofa hvetur strandveiðimenn til að gæta sem best að því að veiða ekki umframafla. Í sumar verður tekið upp það nýmæli að listi yfir þá báta sem veiða mest umfram leyfilegan afla verður birtur  í hverjum mánuði á vef Fiskistofu.

DEILA