Staðan ekki sterkari í áratugi

Fjárhagsleg staða Bolungarvíkur hefur ekki verið sterkari í áratugi. Skuldir hafa lækkað, veltufé frá rekstri aukist og Bolungarvíkurkaupstaður hefur aukna getu til fjárfestinga í innviðum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Jóns Páls Hreinssonar bæjarstjóra. Ársreikningur Bolungarvíkurkaupstaðar var samþykktur í bæjarstjórn í síðustu viku. Rekstarniðurstaða samstæðunnar var jákvæð um 9,4 milljónir kr. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er 119% og hefur lækkað jafnt og þétt síðustu ár. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum á skuldahlutfall ekki að vera hærra en 150%. Árið 2008 stóð hlutfallið í 194%.

„Niðurstaða ársreiknings Bolungarvíkurkaupstaðar fyrir árið 2016 er jákvæð og hefur fjárhagsleg staða bæjarins ekki verið sterkari um áratuga skeið. Skuldir hafa lækkað á sama tíma og veltufé frá rekstri hefur aukist og hefur það bætt getu sveitarfélagsins til að fjárfesta í innviðum. Fjárhagsleg staða bæjarfélagsins gefur því svigrúm til frekari framkvæmda til að styrkja innviði, án þess að tekin sé óþarfa áhætta eða gengið of nærri grunnrekstri bæjarfélagsins,“ segir í tilkynningunni.

DEILA