Á sjöunda hundrað heilsufarsmældir

Hópurinn sem stóð fyrir heilsufarsmælingum á Vestfjörðum.

Heilsufarsmælingar á vegum SÍBS og Hjartaheillar í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða fóru fram á norðanverðum Vestfjörðum í síðust viku. Hafði teymið sem vestur kom í nægu að snúast við að kanna heilsufar heimamanna en 634 voru mældir á heimsóknarstöðunum: Bolungarvík, Ísafirði, Suðureyri, Súðavík, Þingeyri og Flateyri. Mælingarnar náðu til helstu áhættuþátta lífsstílssjúkdóma þar sem mældur var blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun og styrkur auk þess sem boðið var upp á öndunarmælingu. Einnig svöruðu þeir þátttakendum sem vildu lýðheilsukönnun. Boðið var upp á fræðslu um lífsstílstengda sjúkdóma og var hjúkrunarfræðingur frá HVEST með hópnum í för til að veita ráðgjöf og eftirfylgd.

Það var ánægt teymi sem hélt aftur suður á bóginn eftir vel heppnaða Vestfjarðaheimsókn. Á meðfylgjandi mynd sem birtist á Fésbókarsíðu SÍBS má sjá hópinn sem sá um framkvæmdina ásamt Anette Hansen hjúkrunarfræðingi frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eftir að mælingum lauk á Flateyri.

annska@bb.is

DEILA