Pattstaða án gjaldtöku

„Þær framkvæmdir sem verið er að skoða eru af þeirri stærðargráðu að augljóst er að þær munu tæpast komast á áætlun á næstu árum nema að takmörkuðu leyti, ef þær ætti að fjármagna af vegafé sem veitt er af fjárlögum,“ segir Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, um stórframkvæmdir í samgöngumálum út frá höfuðborgarsvæðinu. Í vetur skipaði Jón starfshóp til il að kanna hvernig umfangsmiklum framkvæmdum við stofnleiðir út frá höfuðborgarsvæðinu verði best háttað.

Haft er eftir Jóni í Fréttablaðinu í dag að á þessu ári sé fjárveiting til nýframkvæmda á öllu landinu um ellefu milljarðar króna. Samgöngubætur á suðvesturhorninu sem starfshópurinn er með til skoðunar eru af stærðargráðunni 100 milljarðar króna. Það eru meðal annars Sundabraut, ný Hvalfjarðargöng, tvöföldun eða 2+1 vegur upp í Borgarnes, tvöföldun vegarins til Keflavíkur og austur fyrir Selfoss með nýrri brú á Ölfusá.

Samgönguráðherra segir að ávinningur af þessum framkvæmdum, sem verði fjármagnaðar með gjaldtöku, verði ekki síst á landsbyggðinni.

„Það er alveg ljóst að verði farið í þessar framkvæmdir út frá höfuðborgarsvæðinu, þá mun skapast rými til að ráðast fyrr en ella í brýn verkefni um land allt. Það er víða kallað eftir umbótum, ekki síst á fjölförnum ferðamannaleiðum. Með innheimtu veggjalda á áðurnefndum leiðum erum við líka að fá ferðamenn, þessa nýju stórnotendur að íslenska vegakerfinu, til að taka þátt í uppbyggingu samgönguinnviða með okkur,“ segir Jón í skriflegu svari til Fréttablaðsins.

DEILA